ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Hávaði frá veitingastöðum

Reykjavík, 30. október 2012

Hverfisráð Miðborgar
Skúlagötu 21
101 Reykjavík

Erindi: Hávaði frá veitingastöðum. Tillögur til úrbóta.

Miðborg Reykjavíkur er vettvangur skemmtanahalds í borginni en hún er líka þéttbýlt íbúasvæði. Með lengingu opnunartíma veitinga og skemmtistaða hefur orðið allnokkur núningur milli íbúa og veitingamanna og gesta þeirra vegna hávaða. Einkum hefur verið kvartað yfir hávaða frá hljómflutningstækjum en minna verið rætt um þann hávaða sem berst frá gestum utandyra, fólki sem er í biðröðum, á útipöllum eða reykir fyrir utan staðina. Þessi hávaði jókst mikið við reykingabannið og hefur engin viðunandi lausn fundist á þessu vandamáli.

Nú er það svo að samkvæmt 4. gr. Lögreglusamþykktar Reykjavíkur er bannað að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna og í 26. gr. segir að hver sá sem rekur veitinga- eða gististað, kvikmyndahús, leikhús eða annað samkomuhús eða heldur almenna skemmtun eða sýningu, skal sjá um að allt fari þar vel fram og starfsemin valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar gerir sér grein fyrir því að það getur reynst vandkvæðum bundið að framfylgja þessum reglum en það það hlýtur að vera hagur allra sem hlut eiga að máli að sem víðtækust sátt ríki um hvernig eigi að taka á þessum málum.

Hinn almenni helgargestur veitingahúsanna í miðborginni kemur seint og hefur þá gjarna setið nokkurn tíma að drykkju. Hann er hávær og fer með hrópum og köllum um torg og stræti og ef hann bregður sér út af krá til að fá sér smók keppist hann við að yfirgnæfa alla hina. Þetta er leiður ósiður sem er fáheyrður í þeim menningarborgum sem við viljum helst bera okkur saman við. Ekki er ætlandi að þessum gesti gangi neitt illt til heldur er líklegra að hugsunarleysi sé um að kenna; hann gerir sér einfaldlega ekki grein fyrir því að í næsta húsi er einhver að reyna að sofa.

Eftir að reykingabann varð almenn regla í evrópskum borgum hafa margir veitingamenn farið þá leið að festa upp skilti við útganga eða fyrir utan staði sína þar sem þeir hvetja gesti til að taka tillit til nágrannanna og raska ekki næturró þeirra með háreysti fyrir utan. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar telur að uppsetning slíkra skilta gæti bætt ástandið verulega og fer því fram á samstarf við Félag kráareigenda og Hverfisráð Miðborgar um að koma því í framkvæmd. Það gæti orðið gott fyrsta skref til að færa þessi mál til betri vegar.

Virðingarfyllst

fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Magnús Skúlason formaður

Samrit: Félag kráareigenda

Afrit : Borgarstjóri
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Umhverfis -og samgönguráð
Heibrigðiseftirlit Reykjavíkur
Fjölmiðlar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is