ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Sorphirða í miðborginni

Reykjavík, 29. mars 2011

Til Umhverfis-og samgönguráðs Reykjavíkur

Erindi: Sorphirða í miðborginni.

Vegna áforma um breytingar á sorphirðu í Reykjavík þ.m.t. svokallað 15 metra gjald vilja samtökin koma eftirfarandi á framfæri:

  1. Á nokkrum stöðum á miðborginni eru svokallaðir öskustígar, sem eru hluti upphaflegs skipulags svæðisins frá upphafi og eru ætlaðir fyrir aðkomu öskubíla eins og þeir voru kallaðir hér fyrr. Við þessa stíga eru sorptunnur víðast hvar staðsettar skv . þessu skipulagi enda ekki um aðra staði að ræða þar sem húsin eru randbyggð. Vandséð er hvort réttmætt sé að setja aukagjald á íbúa við þessar aðstæður ef ekki er talið lengur unnt að nota þessa stíga lengur við sorphirðu. Það sama verður einnig sagt um randbyggð án öskustíga þar sem sorpgeymslur eru að húsabaki og aðgengi að þeim um undirganga.
  2. Víða í hverfinu eru bakhús þar sem óhjákvæmlega verður nokkur fjarlægð frá götu. Varla getur talist réttmætt að íbúar þeirra greiði aukagjald.
  3. Í hverfinu eru verslunargötur svo sem við Laugaveg þar sem sorpgeymslur eru undantekningalítið að húsabaki. Vandséð er um réttmæti gjaldtöku við þær aðstæður.

Ef það er vilji borgaryfirvalda að íbúar eða hagsmunaaðiljar setji sorp út á götu þann dag sem sorphirða fer fram eins og víða erlendis þyrfti það að vera sama vikudaginn í hverri viku þannig að fólk átti sig betur á hvenær sorphirða fer fram. Hvernig eiga síðan aldraðir og fatlaðir að færa til sorptunnur og vilja menn hafa ruslatunnur úti á gangstétt sorphirðudaginn?

Víða í nýrri húsum og eftir endurbætur við eldri hús eru sorpgeymslur með byggingarleyfi skv. gildandi byggingarreglugerð. Getur það verið réttmæt að krefjast gjaldtöku ef slíkar sorpgeymslur eru utan 15 metranna? Ef breytingar eru gerðar á sorpgeymslum þarf væntanlega að koma til breyting á byggingarleyfi.

Lýst er hins vegar yfir fullum skilningi á erfiðleikum við sorphirðu vegna snjóa þegar svo ber undir og mættu þar húseigendur sinna betur snjómokstri. Að lokum er hvatt til þess að hið fyrsta verði farið að flokka sorp betur en nú er gert en töluvert vantar þar á í þessu stærsta sveitarfélagi landsins.

Svo virðist sem tillögur að breytingum á sorphirðu þurfi að skoðast mun betur og er því athugasemdum þessum komið á framfæri.

Virðingarfyllst

fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Magnús Skúlason formaður

Afrit: Borgarstjóri
Hverfisráð Miðborgar
Fjölmiðlar
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is