ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Ósk um endurskoðun laga og reglugerðar um veitinga- og gististaði

Reykjavík, 16. desember 2011

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra,
Ingólfsstræti
150 Reykjavík

Efni: Ósk um endurskoðun laga og reglugerðar um veitinga- og gististaði. Fyrir hönd stjórnar íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur vill undirritaður koma á framfæri þakklæti til innanríkisráðherra fyrir opinskáan og gagnlegan fund um lög og reglugerðir sem snerta umhverfi íbúa í borgum og þéttbýli.

Íbúasamtök miðborgar héldu aðalfund 15. nóvember 2011. Á fundinum stofnuðust umræður um ályktunartillögu um áskorun á innanríkisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á lögum um að endurskoða ákvæði um gististaði í lögum og reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtahald. Um er að ræða lög nr. 85/2007 og reglugerð nr. 585/2007. Á fundinum komu fram lýsingar á varnarleysi borgara gagnvart því að hafin væri rekstur heimagistingar fyrir allt að 16 manns án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja. Einnig kom fram að byggingarnefndir og heilbrigðisnefndir sinna ekki rannsóknarskyldu þegar veitt er umsögn um veitingu leyfa samkvæmt lögunum og reglugerðinni. Tillögunni var vísað til stjórnar sem fjallaði um hana á fundi sínum 14. desember 2011. Á þeim fundi komu fram frekari upplýsingar um það í hvert óefni þessi mál eru komin í ekki síst eftir þær breytingar sem gerðar voru á eldri laga- og reglugerðarákvæðum um heimagistingu og gistiheimili. Samanburður á veittum leyfum og auglýsingum frá þeim sem standa fyrir gistiheimilarekstri leiðir í ljós að um það bil 2/3 eru án tilskilinna opinberra leyfa. Þetta bendir til að lagaákvæði séu ófullnægjandi og torvelt sé að framfylgja þeim.

Á grundvelli framangreinds samþykkti stjórn Íbúasamtaka miðborgar að beina þeirri eindregnu ósk til innanríkisráðherra að hann beiti fyrir því að framangreind lög og reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald verði tekin sem allra fyrst til endurskoðunar. Meginmarkmið endurskoðunarinnar verði að styrkja réttarstöðu borgaranna gagnvart því að ekki verði sett niður starfsemi í nágrenni þeirra sem sé þvert á samþykkt skipulag og stórlega dragi úr lífsgæðum og öryggi vegna aukinnar umferðar og margvíslegrar truflunar á nóttu sem degi.

Virðingarfyllst

Magnús Skúlason
formaður

Afrit: Borgarstjóri
Lögreglustjóri Höfuðborgarsvæðisins
Hverfisráð Miðborgar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is