ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Spennistöðin - Félags- og menningarmiðstöð í Miðborginni

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti þann 21. nóvember erindi af Betri Reykjavík um að á næsta ári verði hafist handa við að breyta fyrrum spennistöð Orkuveitunnar við Austurbæjarskóla í félags- og menningarmiðstöð fyrir börn og unglinga og aðra íbúa hverfisins. Jafnframt hvetur ráðið til þess að skoðaðir verði möguleikar á því að húsið verði standsett með aðstoð foreldrafélags skólans og að framkvæmdir verði liður í verkmenntun nemenda í Tækniskólanum sem stunda nám í næsta húsi við Austurbæjarskóla.

Með þessari samþykkt er að rætast langþráður draumur því aldrei hefur verið sérstök félagsmiðstöð í miðborginni og aðstaða til tómstundastarfs barna og unglinga í Austurbæjarskóla hefur verið mjög bágborin. Spennistöðin myndi svara þessari þörf og einnig þörf Austurbæjarskóla fyrir opið fjölnota rými sem nota mætti til að halda samkomur, fundi, listviðburði og til listgreinakennslu því þó skólinn sé á margan hátt vel byggður og í raun ótrúlega nútímalegur skóli miðað við aldur skortir þar rými fyrir leiklistar, dans- og tónlistarkennslu.

Það var að frumkvæði foreldrafélags, stjórnenda og kennara Austurbæjarskóla, starfsmanna Kamps og Íbúasamtaka Miðborgar sem farið var að huga að þessari lausn á þessum málum og á Íbúaþingi um Miðborgina sem íbúabyggð sem haldið var á síðasta ári voru íbúar sammála um að stofnun félags- og menningarmiðstöðvar í hverfinu væri forgangsverkefni.

Spennistöð OR stendur sunnan við Austurbæjarskóla. Í skýrslu sem aðgerðahópurinn lagði fram var lagt til að henni yrði breytt í félags- og menningarmiðstöð auk þess sem skólinn fengi afnot að húsnæðinu fyrir ýmsa starfsemi sem nú er á hrakhólum og að nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu yrðu gerðar á komandi árum eftir efnum, aðstæðum og þörf. Aðstaðan gæti einnig nýst íbúasamtökum og frjálsum félagasamtökum til fundarhalda og annarar starfsemi og einnig átthagafélögum útlendinga en Austurbæjarskóli er fjölmenningarskóli og u.þ.b. fimmti hver nemandi er af erlendu bergi brotinn.

Spennistöðin er 385 fm og lofthæð er 6-7 metrar. Ofan á hana hafa verið byggðar kennslustofur fyrir yngstu bekki skólans. Hugmyndir eru uppi um að byggja milliloft yfir hluta húsnæðisins svo það yrði 517 (587) fm alls. Í því yrði 167 fermetra salur með fullri lofthæð með hliðarrýmum með minni lofthæð sem nýtt yrðu sem smiðjur, fundarherbergi, setustofur osfrv. Hliðarrýmin mætti samnýta með sal en notkun þeirra ákvarðaðist af þörfinni á hverjum tíma. Salurinn gæti þannig reiknast upp í 241 fm. Fyrsti áfangi yrði að koma upp fjölnota sal, salernisaðstöðu, starfsmannarými, hita og rafmagni, mála veggi og gólf og uppfylla þær öryggiskröfur sem gerðar eru til starfseminnar.

Í fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 20 milljónum króna verði varið til þessa verkefnis. Skóla- og frístundaráð telur þá fjárveitingu skynsamlega sem fyrsta skrefið við endurbyggingu spennistöðvarinnar svo draumurinn um félags- og menningarmiðstöð fyrir börn og unglinga í 101, geti orðið að veruleika."

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is