ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Íbúalýðræði gegn verktakalýðræði

Hvað gerist þegar virðulegt gamalt hús, sem á sínum tíma var hannað fyrir eina eða jafnvel tvær fjölskyldur, er bútað niður í margar smáíbúðir? Jú, einhver – t.d. eigandi hússins, oft byggingarverktaki – græðir umtalsvert. Hvað gerist þegar virðulegt gamalt hús, sem á sínum tíma var hannað fyrir eina eða jafnvel tvær fjölskyldur, er bútað niður í margar smáíbúðir? Jú, einhver – t.d. eigandi hússins, oft byggingarverktaki – græðir umtalsvert. Aðrir sem málið snertir tapa hinsvegar miklu. Ekki einungis í beinhörðum peningum heldur einnig í lífsgæðum.

Þótt töluvert hafi verið rætt og ritað um íbúalýðræði í tengslum við skipulagsmál á Íslandi undanfarin ár gengur íbúum enn illa að hafa áhrif á nærumhverfi sitt, jafnvel þótt mikið sé í húfi. Sú árátta byggingarverktaka að taka gömul hús og breyta þeim það mikið til að hámarka gróða sinn að verulega er vegið að upprunalega höfundarverkinu og þeirri sameiginlegu arfleifð sem húsið tileyrir er t.d. vandamál sem borgaryfirvöld hafa ekki tekist á við en íbúar sitja uppi með. Samt sem áður er margt sem borgaryfirvöldum ber skylda til að skoða í slíkum tilvikum (fyrir utan menningarverðmætin) svo sem byggðarmynstur hverfisins, aðgangur og fjöldi bílastæða og hvers konar húsnæði vantar í hverfið til að það myndi sem best viðunandi heild hvað nýtingu á skólum, verslunum og annarri þjónustu varðar.

Í hverfinu 101, þar sem húsnæði hefur verið einna dýrast undanfarin ár, eru flest þau hús sem heyra til menningarsögulegra verðmæta á höfuðborgarsvæðinu. Sum hafa verið rifin í umróti góðærisins. Önnur hafa tekið stakkaskiptum, t.d. verið bútuð niður að innan. Í 101 er samt lítill hörgull á litlum íbúðum. Einnig er töluvert af stóru og dýru húsnæði. Hins vegar er afar erfitt að finna miðstærð af íbúðum, fyrir fjölskyldur, barnafólk, sem ekki vill vera í úthverfunum. Það er sem sagt skortur á fólki í 101 sem ber uppi nærverslun og þjónustu – vill lifa þar venjulegu fjölskyldulífi.

Arkitektar og skipulagsfræðingar hafa fyrir löngu sannað að þarfagreining íbúahverfa er mikilvægt tól í höndum borgaryfirvalda. Þrátt fyrir fögur orð um þarfir íbúa og íbúalýðræði þegar að ákvarðanatöku kemur, sanna dæmin á höfuðborgarsvæðinu að réttara væri að tala um verktakalýðræði. Verktakar hafa í raun stýrt því sem þeir hafa viljað því sveitarfélögin höfðu fjárhagslegan ávinning af bröltinu og sátu þannig báðum megin borðs við hagsmunagæsluna.

Þegar gamalt fjölskylduhús er skyndilega orðið að litlu sambýlishúsi með 5-10 smáíbúðum fer ýmislegt úr skorðum. Fyrirkomulag íbúðanna og aðgangur að þeim verður undarlegur enda í trássi við upprunalegri hönnun. Garðar fara undir sorptunnur, bílastæði verða vandræðamál sem leysa þarf á litlum lóðum eða þröngum götum á kostnað annarra íbúa og gangandi vegfarenda. Ef borgaryfirvöld ætla að standa sig í stykkinu gagnvart borgarbúum verða þau að taka meðvitaðar ákvarðanir með hag heildarinnar í huga, en ekki einungis láta undan þrýstingi þeirra sem eiga mun sértækari hagsmuna að gæta – þ.e. sinna eigin – eins og byggingarverktakarnr.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Greinin birtist fyrst í Mbl. 2009

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is