ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Skýrsla Stjórnar 2018

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar sem var haldinn í Spennistöðinni þann 15. október.

Íbúasamtök Miðborgar
Reykjavíkur (skammstafað ÍMR) er félag íbúa í Miðborginni eins og hún hefur verið afmörkuð sem hverfi á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallavegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þessu svæði og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins. Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur voru stofnsett á fundi í Iðnó þann 11. mars 2008 og íbúar á svæði þeirra eru nú um 8000.

Markmið
Tilgangur samtakanna og markmið er að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins og starfa með Hverfisráði Miðborgar og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess og íbúasamtökum annarra hverfa.

Stjórn ÍMR
Síðasti aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var haldinn 26. september 2017 og eftirtaldir skipuðu stjórn síðasta ár: Benóný Ægisson formaður, Ragnhildur Zoega varaformaður, Birgitta Bára Hassenstein ritari, Guðrún Janus gjaldkeri og Eva Huld Friðríksdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Aðalsteinn Jörundsson, Birna Þórðardóttir, Einar Örn Thorlacius og Hlín Gunnarsdóttir.

Starfið
Starf ÍMR felst aðallega í því að gæta hagsmuna íbúa miðborgarinnar og felst meðal annars í upplýsingagjöf til þeirra en ÍMR heldur úti Facebook síðu og vefnum www.midbaerinn.is með upplýsingum um fundi, störf stjórnar, uppákomur og fleira. Stjórn ÍMR ályktar og sendir frá sér ábendingar um ýmislegt sem varðar búsetu í miðbænum og stendur fyrir ýmsum verkefnum sem miða að því að bæta miðbæinn sem íbúahverfi. Þá kemur ÍMR að rekstri Spennistöðvarinnar, félags- og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar og ÍMR á áheyrnarfulltrúa með tillögurétt í ýmsum nefndum og starfshópum Reykjavíkurborgar.

Skipulagsmál
Skipulagsmál eru fyrirferðarmikill þáttur í starfi stjórnar ÍMR einkum nú á tímum mikillar uppbyggingar í miðborginni. Stjórn ÍMR hefur m.a. fjallað um og/eða ályktað um eftirtalin mál síðasta árið: 
• Mótmælt því að fjölbýlishúsi við Barónsstíg yrði breytt í íbúðahótel
• Gert athugasemdir við breytingartillögu á aðalskipulagi um breyttar heimildir um veitinga- og gististaði eftir landnotkunarsvæðum
• Stutt tillögu um að flytja gamalt hús á autt svæði við Bergstæðastræti
• Tekið þátt í að móta tillögur um umferð hópferðabíla í miðborginni
• Barist fyrir því að hestagerði við Fríkirkjuveg 11 yrði áfram leiksvæði barna en Reykjavíkurborg hefur leigt Björgólfi Thor Björgólfssyni gerðið næstu 50 árin
• Gert tillögur um fjölgun leiksvæða fyrir börn í miðbænum, m.a. með því að koma fyrir leiktækjum í almenningsgarðinum Frakklandi
• Bent á skort á biðskýlum á safnstæðum hópferðabíla
• Farið fram á áframhaldandi viðræður um rútuakstur í miðbænum
• Óskað eftir meiri festu í starfi íbúahússins Spennistöðvarinnar
• Ennfremur hefur stjórn Íbúasamtaka Miðborgar skorað á borgarstjóra að beita sér fyrir því að aukið samráð verði haft við íbúa miðborgarinnar í skipulagsmálum og að þeir fái að hafa meiri áhrif á framtíðaruppbyggingu hverfisins

Ályktanir stjórnar ÍMR er að finna á vef okkar: midbaerinn.is

Samstarfsverkefni og seta í nefndum og starfshópum
Íbúasamtök Miðborgar taka þátt í mörgum samstarfsverkefnum og oft er leitað til þeirra um að tilnefna fulltrúa í ráð og nefndir Reykjavíkurborgar. Hér á eftir fer upptalning á nokkrum þessum samstarfsverkefnum:

Hverfisráð Miðborgar. ÍMR hefur frá stofnun átt áheyrnarfulltrúa í hverfisráði Miðborgar. Fundirnir fara fram mánaðarlega og hefur fulltrúinn tillögurétt en getur ekki greitt atkvæði um einstök mál. Ekki er greidd nein þóknun til fulltrúa íbúasamtaka fyrir setu í hverfisráðum frekar en öðrum ráðum og nefndum Reykjavíkurborgar þar sem borgin hefur farið fram á aðkomu Íbúasamtakanna og getur því þessi seta verið íþyngjandi því fundir hjá ÍMR eru yfirleitt um 50-60 talsins á ári, mun fleiri en hjá öðrum íbúasamtökum.

Húsráð Spennistöðvar. Íbúasamtökin og Foreldrafélag Austurbæjarskóla ásamt fleiri aðilum börðust lengi fyrir því að fá spennistöð sem er áföst við Austurbæjarskóla til afnota sem fjölnotarými fyrir skólann, sem  félagsmiðstöð barna og unglinga í hverfinu og sem íbúahús. Það tókst á endanum og var Spennistöðin, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar, opnuð 2014. Húsráðið er ráð notenda Spennistöðvarinnar og er það ráðgefandi um starfsemi hennar og að loknu tveggja ára tilraunatímabili árið 2016 gaf það út áfangaskýrslu. Frá 2016 hefur húsráðið lítið starfað og samráð við ÍMR verið lítið. Farið hefur verið fram á viðræður við borgarstjóra um leiðir til að koma á meiri festu í starfsemi Spennistöðvarinnar sem íbúahúss.

Miðborgarstjórn. ÍMR hefur átt áheyrnarfulltrúa í miðborgarstjórn frá stofnun hennar 2017. Miðborgarstjórn er samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og allra hagsmunaaðila í miðborginni og heldur hún fundi mánaðarlega.

Samstarf íbúasamtaka. ÍMR beitti sér fyrir samstarfi allra íbúasamtaka á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum misserum en því miður heppnaðist það ekki sem skyldi. Hinsvegar hefur samstarf við Íbúasamtök Vesturbæjar og Íbúasamtök 3. hverfis í Reykjavík - Hlíða, Holta og Norðurmýrar verið með ágætum enda eiga hverfin margt sameiginlegt. Til dæmis höfum við haldið sameiginlegan fund með byggingarfulltrúa og skipulagsstjóra til að ræða við þá um það sem er í pípunum fyrir hverfin og stóðum að því að haldinn var opinn fundur hverfisráða og íbúasamtaka Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og borgarstjóra í Ráðhúsinu. Þar var hótelvæðing þessara hverfa rædd. Þar sem hverfisráð starfa ekki lengur hefur að frumkvæði þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða verið efnt til mánaðrlegra funda með þessum þremur íbúasamtökum.

Stýrihópur um rútuumferð. ÍMR átti fulltrúa í samstarfshópi um að koma reglu á akstur hópferðabíla um miðborgina en fyrir nokkrum misserum var mikið ónæði af honum og mikil óánægja hjá íbúum. Í samráði ÍMR, Samtaka ferðaþjónustuaðila og Reykjavíkurborgar var þróað fyrirkomulag um ákveðnar akstursleiðir og um sleppistæði á ákveðnum stöðum. Allir eru sammála um að þetta fyrirkomulag sé til bóta en nú ber æ meira á því að rútufyrirtæki virði ekki samkomulagið um akstursleiðir og akstursstefnu og setur það allt fyrirkomulagið í uppnám. Íbúar í miðborginni kæra sig ekki um að fá aftur það ástand sem var fyrir samkomulagið og því hafa Íbúasamtökin óskað efir því að það verði endurskoðað og reglur hertar. Fulltrúar ÍMR hafa átt einn fund með formanni umhverfis- og skipulagsráðs og samgöngustjóra um málið og stjórn ÍMR mun fylgja þessu máli eftir.

Aðventunefnd Höfuðborgarstofu. ÍMR hefur tekið þátt í starfi aðventunefndar síðastliðin tvö ár og haft það helst til málanna að leggja að gerðar yrðu öryggisráðstafanir á Skólavörðuholti á gamlárskvöld en þar hefur safnast saman mikill mannfjöldi til að horfa á stjórnlausa flugeldaskothríð. Á síðasta ári var gerð tilraun til að koma upp ákveðnum skotsvæðum og var það til mikilla bóta og verður væntanlega framhald á því.

Ferðamálastefna. Formaður ÍMR hefur tekið þátt í starfi sem hefur það markmið að móta ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg og í starfi sem hefur það markmið að móta ferðamálastefnu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.

Verkefni ÍMR

Heil brú
Verkefninu Heil brú var hleypt af stokkunum 2016 til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstövar miðborgarinnar, og eru einkunnarorð þess: Sköpum, ræðum og leikum okkur saman. Markmiðið með verkefninu er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og er það gert með því að halda smiðjur og málþing á laugardögum í Spennistöðinni og eru þær ætlaðar öllum íbúum í miðbænum. Veturinn 2016-17 var starfsemin mjög blómleg en dróst saman síðasta vetur vegna skorts á fjármagni. Í sumar og haust hefur verið erfitt um vik með þessar uppákomur því Spennistöðin lokaði vegna viðhalds í vor og hefur ekki verið opnuð enn. Síðast liðið ár voru haldnar tvær smiðjur og boðað til tveggja málþinga.

Dansað í Spennistöðinni
Íbúasamtökin og Kramhúsið buðu upp í dans í Spennistöðinni þann 16. september 2017 en þar gafst öllum íbúum hverfisins tækifæri til að prófa dansa frá hinum ýmsu sveitum jarðar, breikdans, skapandi dans, Bollywood dansa og Balkandansa. 

Tónsmiðja Péturs Hafþórs
Þann 27. janúar 2018 stjórnaði Pétur Hafþór Jónsson tónlistarkennari tónsmiðju þar sem farið var í gegnum ýmis grundvallaratriði nýgildrar tónlistar og mættu sumir þátttakendur með hljóðfærin sín en einnig voru hljóðfæri á staðnum sem þeir gátu nýtt sér. Ýmsum stílbrigðum var beitt, blús, suður-amerískum takti og óforskömmuðu poppi.

Fundur með frambjóðendum
Íbúasamtökin gengust fyrir málþingi 14. apríl 2018 þar sem fulltrúum allra framboða til borgarstjórnarkosninga var boðið til að kynna stefnu sína í málefnum miðbæjarins og svara spurningum sem voru þannig til komnar að íbúum gafst kostur á að leggja til spurningar á Fb-síðu Íbúasamtakanna og voru spurningarnar þversumman af óskum íbúanna. Íbúarnir vildu fá svör við því hvaða áætlanir framboðin hefðu um að gera miðborgina fjölskylduvænni svo meiri líkur væru  á að hún héldist áfram í byggð, það var spurt um þéttingu byggðar og verndun eldri byggðarinnar, um hvernig framboðin hygðust takast á við umferðarvandann í miðborginni og hvernig þau ætluðu að verja útsvarspeningum miðborgarbúa. Fulltrúar tólf framboða mættu í Spennistöðina:

Samfylkingin: Dagur B Eggertsson
Vinstri græn: Stefán Pálsson
Píratar: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Framsóknarflokkur: Snædís Karlsdóttir
Höfuðborgarlistinn: Björg Kristín Sigþórsdóttir
Miðflokkurinn: Baldur Borgþórsson
Sjálfstæðisflokkur: Hildur Björnsdottir
Viðreisn: Diljá Ámundadóttir
Alþýðufylkingin: Þorvaldur Þorvaldsson
Flokkur fólksins: Kolbrún Baldursdóttir
Sósíalistaflokkurinn: Sanna Magdalena Mörtudóttir
Frelsisflokkurinn: Gunnlaugur Ingvarsson

Málþing með þingmönnum
Á kjördæmadögum í haust var fyrirhugað að efna til málþings þar sem öllum þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmi norður var boðið til að ræða við íbúa miðborgarinnar um þau málefni hverfisins sem að þeim snúa, það er að segja með tilliti til lagasetningar um skipulagsmál, atvinnumál, velferðarmál og fleira.
Einungis þrír þingmenn Reykjavíkur norður þáðu boð ÍMR en tveir þeirra voru ekki vissir um hvort þeir gætu setið allt málþingið vegna anna en þingmenn kjördæmisins eru ellefu úr sex stjórnmálaflokkum. Aðrir þingmenn höfðu í hyggju að vera úti á landi eða erlendis eða svöruðu ekki erindi Íbúasamtakanna sem barst þeim fyrst þremur mánuðum fyrir kjördæmadagana. Stjórn ÍMR harmaði áhugaleysi þingmanna Reykjavíkurkjördæmis norður á að ræða við kjósendur sína í miðborginni en sá engan tilgang í því að halda málþingið undir þessum kringumstæðum og þess vegna var því aflýst.

UmHverfisgöngur
UmHverfisgöngur eru tilraunaverkefni Íbúasamtaka Miðborgar í samstarfi við verkefnisstjóra miðborgarmála. Þetta eru göngur um afmörkuð svæði eða götur í hverfinu og er tilgangur þeirra að vera samráðsvettvangur borgaryfirvalda við íbúa til að bæta umhverfi þeirra. Það felur í sér að fólk gengur saman um hverfið, eftir fyrirfram ákveðinni leið, og skoðar hvernig umhverfið lítur út með tilliti til öryggis og lífsgæða og ræðir hvaða úrbóta sé þörf.

Umhverfisgöngur skiptast í þrjá meginhluta: Fyrst er farin ganga um ákveðið svæði og það tekið út með tilliti til þess hvað þarf að gera til að bæta öryggi, ástand eigna og umhverfis, aðgengi að þjónustu og auka lífsgæði almennt á viðkomandi svæði. Síðan tekur við framkvæmdatímabil þar sem reynt er að færa allt til betra horfs. Að lokum er farin önnur ganga þar sem framkvæmdin er metin, árangur mældur og teknar ákvarðanir um framhald, sé þörf á því.
Fyrsta UmHverfisganga Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var gengin 16. ágúst 2017 um Iðnaðamannareit, sunnan Skólavörðustígs neðanverðs. Þarna er blönduð byggð, íbúa og fyrirtækja, borgareignir og eignir í eigu almennings, veitingastaðir og ferðamannagisting svo nokkuð sé nefnt og vegna fjölbreytileikans þótti þetta svæði ákjósanlegt til að gera þessa fyrstu tilraun.

Þátttakendur í göngunni voru auk íbúa og rekstraraðila á svæðinu, fulltrúar frá Umhverfis og skipulagssviði, Bílastæðasjóði, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, verkefnisstjórn miðborgarmála og Lögreglustöð 1. Í göngunni var einkum hugað að baklóðum, gönguleiðum milli húsa og bílastæðum og það sem var skoðað var m.a. veggjakrot, lýsing, skemmdarverk, sóðaskapur og slæm umgengni og rætt um hreinsun og lagfæringar, ónæði frá næturlífi, fíkniefnaneyslu og sölu og hávaða frá flutningabílum.

Með samstilltu átaki íbúa og borgarinnar var svæðið hreinsað, veggjakroti eytt, lýsing bætt, girt fyrir gönguleið frá kránum í Ingólfsstræti og bætt við eftirlitsmyndavélum og viðvörunum. Enn eru eftir blettir á svæðinu þar sem má gera betur en það er mál manna á Iðnaðarmannareit að verkefnið UmHverfisganga hafi orðið þeim sem þar búa og starfa til góðs. Mikil samstaða hefur verið um að bæta ástandið og verkefnið hefur orðið til þess að stytta boðleiðir milli allra þeirra aðila sem þar búa og starfa og því er einfaldara að takast á við mál sem upp munu koma í framtíðinni.

Nú stendur til að fara í aðra UmHverfisgöngu um austurhluta miðbæjarins, Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu milli Barónsstígs og Snorrabrautar og eru þær tvær síðastnefndu meðtaldar þar sem þær liggja að þessum götum. Gangan hefst við leikskólann Barónsborg fimmtudaginn 25. október kl. 17:15 ef næg þátttaka fæst.

Upplýsingamiðlun
Eins og fyrr sagði reka Íbúasamtökin Fb-síðu og vefinn midbaerinn.is til að upplýsa íbúa miðbæjarins um hvaðeina sem er á döfinni. Ásókn frá fjölmiðlum í viðtöl er einnig þónokkur sérstaklega ef lýsa á “ástandinu” í miðbænum. Það er oft erfitt að að svara þannig að það komi fram að gott sé að búa í miðbænum, sérstaklega þegar maður hefur litla stjórn á því hvað fjölmiðlarnir birta af tilsvörum manns. Að undanförnu hafa erlendir fjölmiðlar sýnt sambýli okkar við ferðamenn mikinn áhuga og hef ég meðal annars verið í viðtölum við frönsk/þýsku menningarsjónvarpsstöðina ARTE, viðskiptaútvarp BBC og japanska stórblaðið Asahi Shimbun auk nokkurra minni spámanna. Þessi aukni áhugi erlendra fjölmiðla er í takt við það ástand sem hefur skapast í mörgum borgum vegna stóraukins fjölda ferðamanna.

Fjármál
Eins og heyra má er starfsemi Íbúaamtakanna orðin ansi umfangsmikil og þar sem rekstrarfé er af skornum skammti er hún að mestu leyti unnin af sjálfboðaliðum. Engin föst framlög eru til ÍMR og engin félagsgjöld eru innheimt og því höfum við orðið að leita eftir styrkjum og höfum m.a. fengið styrki frá Hverfisráði og Forvarnarsjóði, einkum til að reka verkefnið Heila brú í Spennistöðinni og UmHverfisgöngurnar.

Það var upphafleg hugmynd okkar í Íbúasamtökunum að ráðin yrði sérstakur starfsmaður sem tengdi saman starfsemina í Spennistöðinni og sinnti einkum hlutverki hennar sem íbúahúss en Spennistöðin er eina íbúahúsið í Reykjavík þó slík hús hafi verið til í nágrannalöndunum um nokkra hríð. Þetta sjónarmið hefur mætt litlum skilningi hjá borgaryfirvöldum, enginn tengiliður var ráðin og því fórum við af stað með Heila brú til að einhver starfsemi yrði í Spennistöðinni á vegum Íbúasamtakanna sem tengdi íbúana saman, óháð aldri, þjóðerni osfrv. Við bundum nokkrar vonir við að fá fjármagn úr miðborgarsjóði þegar hann var stofnaður til að reka þessa starfsemi og sóttum um 5.5 milljónir en var úthlutað einni milljón króna eða 3% af sjóðnum og fyrir þá upphæð var hvorki hægt að lifa eða deyja. Hinsvegar fékk Miðborgin okkar, félag verslunareigenda og rekstraraðila um 60% af sjóðnum þannig að það var nokkuð ljóst að starfsemi þeirra þótti 20sinnum merkilegri en okkar og í mótmælaskyni afþökkuðum við styrkinn og því varð starfið í vetur heldur rýrt.

Nú stendur fjárhagsáætlunargerð fyrir dyrum í Reykjavíkur og það þarf að sækja það fast að fá fasta fjárveitingu til íbúahússins Spennistöðvarinnar til að fá festu í félagsstarf íbúa miðbæjarins. Miðað við það sem borgin virðist tilbúin til að leggja fram til að styrkja félagsstarf í Háskólanum í Reykjavík ætti það varla að vera mikið mál

Lokorð
Ég vil að lokum þakka stjórn Íbúasamtaknna og öllum þeim sem komið hafa að starfi samtakanna síðasta árið. Samstarfið í stjórn hefur verið með ágætum og það er ánægjulegt að flestir þeir sem eiga nú að ganga úr stjórn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Það yrði afar dýrmætt veganesti fyrir þá sem veljast í stjórnina að fá ábendingar um hvar sé mikilvægast að hún beiti sér fyrir íbúana og hvað hún geri að baráttumálum sínum. Hugmyndum getið þið komið á framfæri núna í umræðum um skýrslu stjórnar eða síðar á fundinum undir dagskrárliðnum Verkefni næsta árs.

Reykjavík 15. október 2018
Benóný Ægisson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is