ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 3. mars 2020

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar þriðjudaginn 3. mars 2020 kl 19 í Spennistöðinni

Fundurinn hófst á sameiginlegum fundi stjórna Íbúasamtaka Miðborgar, Íbúasamtaka Vesturbæjar og Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar). Þrír mættu frá Miðbænum, fimm úr Hlíðum og einn úr Vesturbæ. Spurt var um hvaða mál íbúasamtökin í vesturhlutanum gætu sameinast um og fljótlega barst talið að opnum svæðum, leiksvæðum barna og lýðheilsumálum. Einar Örn (ÍMR), Rakel (ÍV) og Silja (Í3.) tóku að sér að semja ályktun um þau mál.

Við tók stjórnarfundur ÍMR en einungis þrír voru mættir, Benóný Ægisson, Einar Örn Thorlacius og Margrét Einarsdóttir, en mikið var um forföll vegna veikinda og utanlandsferða en eftirtalið var rætt: Skammdegisgleðin 9. febrúar: Allir voru sammála um að vel hafi til tekist en á annað hundrað manns mættu.

Íbúaráðsfundur í febrúar: Formaður sagði frá 4. íbúaráðsfundinum en þar gerði hann eftirfarandi bókun:

„Þann 21. september 2019 sendu formenn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur og Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) bréf til formanns Mannréttinda,- nýsköpunar- og lýðræðisráðs Dóru Bjartar Guðjónsdóttur þar sem því var mótmælt að hverfisskipan hverfisráðanna yrði breytt en hverfin höfðu áður hvort sitt hverfisráð en áttu nú að deila íbúaráði. Töldu formennirnir að hverfin væru of ólík og hagsmunir íbúa hverfanna svo mismunandi að það gæti heft starf íbúaráðsins. Gallar þessa fyrirkomulags eru nú að koma ljós, til dæmis á því að ráðsfólki hefur aldrei tekist að halda sig innan fyrirhugaðs fundartíma vegna fjölda mála og vegna tímaskorts hafa brýn mál ekki enn komist á dagskrá. Mér finnst einnig sem formanni Íbúasamtaka Miðborgar heldur hafa hallað á mitt hverfi og má nefna að á þessum fundi eru bara tvö mál af ellefu sem gætu kallast sértæk mál miðborgarinnar og síðasti fundur fór nánast allur í að ræða fyrirhuguð smáhýsi í Hlíðahverfi. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða þarf að koma sér upp vinnulagi sem tryggir að hverfunum sé sinnt jafnt, að minnsta kosti á meðan núverandi fyrirkomulag er við lýði.”

Afrit af bréfi formannanna frá 21.9.20 fylgdi þessari bókun.

Fundargerðir Íbúaráðs eru á vef Reykjavíkurborgar á slóðinni https://reykjavik.is/fundargerdir. Velja þarf Íbúaráð Miðborgar og Hlíða og þá koma allar fundargerðirnar upp.

Miðbæjarstjórnarfundur: Formaður sagði frá Miðborgarstjórnarfundi sem haldinn var 25. febrúar. Óvíst er um framhald á starfi Miðborgarstjórnar því tilraunartími er liðinn og borgarfulltrúar hafa ekki ákveðið hvort því verði haldið áfram og þá hvernig. Þar með er óvíst um úthlutanir úr Miðborgarsjóði en til hans hafa ÍMR sóttt fjármagn fyrir Heila brú og fleiri verkefni.

Fundur um akstur með ferðamenn: Þrír fulltrúar frá ÍMR mættu á fund samgöngustjóra um akstur með ferðamenn, Benóný, Ragnhildur og Runólfur Ágústsson sem var fulltrúi okkar þegar núverandi akstursfyrirkomulag var ákveðið. Þetta var spjallfundur þar sem fólk bar saman bækur sínar um hvernig fyrirkomulagið hefði reynst og hvernig ætti að bæta það. Engar ákvarðanir voru því teknar en vonandi verður framhald á.

Málþing um næturlífið: Formaður skýrði frá því að erfiðlega hefði gengið að manna pallborð á málþinginu en borgarfulltrúarnir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Sigurborg Ósk og Pawel Bartozek komast ekki en Líf Magneudóttir varaformaður borgarráðs og formaður umhverfis og heilbrigðisráðs mun mæta. Þórdís Lóa og Pawel segjast vera á landsfundi Viðreisnar um þessa helgi en honum hefur nú verið frestað vegna kórónaveirunnar svo það er ekki öll von úti um að þau mæti. Sigríður lögreglustjóri kemst ekki en hún er að athuga hvort Jóhann Karl, yfirmaður í miðborgarstöðinni komist. Formaður er kominn með nöfn nokkurra fulltrúa frá næturhagkerfinu og mun kanna hvort veitingafólk vilji ekki senda fulltrúa. Verst er þó að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendir ekki fulltrúa og því sendi formaður eftirfarandi póst til Lífar Magnedóttur:

„Eins og þér er kunnugt um þá munu Íbúasamtök Miðborgar standa fyrir málþingi um sambýli íbúa í miðbænum við næturlífið laugardaginn 14. mars kl 13-15 í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar. Við höfðum boðið Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þátttöku í pallborði málþingsins enda er Heilbrigðiseftirlitið lykilstofnum í eftirliti með veitinga og skemmtistöðum. Í gær barst mér eftirfarandi póstur frá Rósu Magnúsdóttur:

Sæll Benedikt

Heilbrigðiseftirlitið getur því miður ekki orðið við beiðni Íbúasamtaka Miðborgar um að taka þátt í pallborði á fundinum þann 14. mars. Almennt er erfitt að verða við beiðnum sem þessum þar sem fundurinn er utan hefðbundins vinnutíma og því miður tókst ekki að manna þetta þrátt fyrir að ég reyndi mitt besta.

Með kveðju Rósa Magnúsdóttir deildarstjóri Umhverfiseftirlits

Sæl Líf

Ég er satt að segja að mjög undrandi á þessum viðbrögðum. Hávaði frá skemmtistöðum er mikið lýðheilsumál fyrir þá íbúa sem eru í nábýli við þá og það er hlutverk Heilbrigðiseftirlits að mæla hann. Það gefur auga leið að það er ekki hægt nema utan hefðbundins vinnutíma, er það þá aldrei gert? Það er bráðnauðsynlegt að fá fulltrúa Heilbrigðiseftirlits á þennan fund svo hann geti gert íbúum grein fyrir starfsaðferðum stofnunarinnar og vil ég fara fram á það við þig að þú sem formaður umhverfis og heilbrigðisráðs beitir þér fyrir því að svo megi verða.

Kær kveðja F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur Benóný Ægisson formaður“

Ennfremur sendi formaður eftirfarandi bréf til Lífar um fyrirkomulag málþingsins:

„Á málþinginu mun ég lýsa þeirri þróun sem hefur orðið síðustu áratugi í næturlífinu og leggja eftirfarandi spurningar fyrir pallborðið en þegar þeim hefur verið svarað yrðu opnar umræður:

Með hvaða hætti eru samskipti lögreglu og heilbrigðiseftirlits?
Kemur lögreglan upplýsingum um kvartanir vegna hávaða til heilbrigðiseftirlitsins?
Nýlega keypti Reykjavíkurborg mæla til að mæla hávaða. Hvar hafa þeir verið notaðir? Og hvað kom útúr mælingum?
Í 4. gr. lögreglusamþykktar er ákvæði sem á að tryggja borgurunum næturró. Eru dæmi um að staðir hafi verið sviptir veitingaleyfi eða ekki fengið þau framlengd vegna ítrekaðra brota á þessu ákvæði?
Hvaða kröfur eru gerðar til hljóðvistar veitingahúsa sem hafa leyfi til skemmtanahalds fram á nótt og leika tónlist?
Hver er skilgreind ábyrgð veitingahúsaeigenda af ónæði vegna gesta utandyra við stað sinn?
Hvað geta veitingamenn gert til að halda ónæði af starfsemi sinni í lágmarki?“

Upp kom hugmynd um að fá Gunnar Alexander Ólafsson frá Umhverfisstofnun til að fjalla um hvaða áhrif hávaði um nætur hefur á lýðheilsu en ef hann kemst ekki að hafa Þóru Guðmundsdóttur hjá Landlækni til vara. Einnig kom fram tillaga um að Ragnhildur Zoega yrði fundarstjóri og var það samþykkt.

Heil brú í maí og júní: Nú eru þrjár dagsetningar bókaðar fyrir Heila brú, 14. mars, 9. maí og 13. júní. 14. mars er ætlaður fyrir málþingið en möguleiki væri að fresta því fram í maí og hafa vorblótið í júní

Ályktun um vanrækt hús: Formaður hafði lofað upp í ermina á sér að hann hefði tilbúna ályktun á fundinum en vannst ekki tími til að gera hana. Frestað til næsta fundar.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar: Erindi kom frá nefndasviði Alþingis um hvort ÍMR vildi gera athugasemdir við frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ekkert var ákveðið á þessum fundi enda var hann of fámennur til að gera ályktanir.

Eigendur ÍMR: Það bar til um þessar mundir að boð komu frá æðri máttarvöldum um að skrásetja skyldi raunverulega eigendur félagasamtaka. Formaður hafði þetta að segja um málið: „Mér finnst þessi gerningur vera kafkaísk vitleysa og var skapi næst að ansa þessu engu enda kem ég því ekki heim og saman að einhver geti átt áhugamannafélög eins og íbúasamtök og foreldrafélög en braut þó odd af oflæti mínu og sendi inn skráningu í morgun til að koma í veg fyrir að við yrðum beitt dagsektum. Ég skráði ÍMR sem eign stjórnar og verði ykkur að góðu.“

Næsti fundur: Næsti fundur átti að verða 7. apríl en þá hafði samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins tekið gildi. Fundinum var því aflýst og öllum samkomum á vegum Íbúasamtakanna frestað til hausts.

Benóný Ægisson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is