ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 15. nóvember 2011

Aðalfundur Íbúasamtaka miðborgar, haldinn í Iðnó 15. nóvember á efri hæð kl. 20:00.

Formaður Íbúasamtakanna, Magnús Skúlason, bauð félagsmenn velkomna og sagði fundinn settan. Hann lagði til að Sigurmar K. Albertsson yrði fundarstjóri. Ekki komu fram aðrar uppástungur og tók Sigurmar við stjórn fundarins. Hlín Gunnarsdóttir var kosinn fundarritari. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins. Boðað var til fundarins í samræmi við lög félagsins með tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn var auglýstur í Fréttablaðinu og einnig boðaður með tölvubréfi. Fundarstjóri úrskurðaði að aðalfundurinn væri löglegur þar sem löglega hafi verið boðað til hans. Að því mæltu var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla stjórnar um störf samtakanna og nefnda.
Formaður samtakanna Magnús Skúlason flutti skýrslu stjórnar sem fer hér á eftir: Síðasti aðalfundur samtakanna var haldinn 16. nóvember 2010 og var þá kosin ný stjórn eins og lög mæla fyrir um. Fundarstjóri var sem áður Sigurmar K. Albertsson hrl. og eru honum færðar sérstakar þakkir fyrir þau störf. Og vonandi fáum við að njóta hans krafta sem lengst. Fundinn sóttu liðlega þrjátíu manns.

Efirfarandi voru kosnir í nýja stjórn: Magnús Skúlason formaður, Arnar Helgi Kristjánsson, Bryndís Jónsdóttir og Guðrún Janusdóttir Halla Bergþóra Pálmadóttir en Benóny Ægisson og Hlín Gunnarsdóttir sátu áfram en þau höfðu verið kosin til tvegga árið áður. Kári Halldór Þórsson og Gylfi Kristinsson létu af stjórnarsetu.Varamenn sem höfðu verið kosin til tveggja ára voru þau Sigrídur Gunnarsdóttir og Gylfi Kristinsson . Í stað þeirra tveggja sem gengu úr varastjórn voru kosin þau Pálína Jónsdóttirog Sigurdur Sigurdsson.

Gestur fundarins Pétur H. Ármannsson flutti hugleiðingar um skipulagsmál, um þéttingu byggðar og þróun miðborgar Reykjavíkur. Afar áhugavert erindi þar sem bent er á að þróun miðborgarinnar er miklu fremur línuleg í austurátt en ekki í suðurátt yfir í Vatnsmýri. Stjórnarfundir hafa að jafnaði verið haldnir tvisvar í mánuði. Þar utan hefur formaður setið flesta fundi Hverfisráðs Miðborgar en þeir eru haldnir mánaðarlega að jafnaði. Íbúasamtökin hafa þar seturétt með málfrelsi og tillögurétti sem óspart er notað enda ætíð gert ráð fyrir einum lið á dagskrá ráðsins vegna samtakanna. Hefur ráðið oftar en ekki tekið undir stjórnarsamþykktir Íbúasamtakanna eða tillögur. Sá er hins vegar galli á gjöf Njarðar að ráðið er einungis ráðgefandi fyrir borgarstjórn.

Á síðasta aðalfundi drepið á ýmis mál undir liðnum skýrsla stjórnar og mætti nefna nokkur hér.

Mikilvægt var talið að í miðborginni fái áfram þrifist smáiðnaður og smáverslanir. Stórmarkaðir eigi ekki heima í midborginni, hún henti ekki þeirri starfsemi. Kvartað var um hávaða frá skemmtanahaldi á lóðum fyritækja sem snúa að íbúabyggð. Bílastæðismál og gjaldskylda. Sjónarmið virðast ólík varðandi þetta mál og kom fram að það ætti ekki að vera stjórnsýslunni ofvaxið að spyrja íbúa á hverjum stað og taka tillit til ólíkra sjónarmiða.

Þá var lagt til að í stað gjaldskyldu verði tekin upp klukka eins og á Akureyri Þá var minnt á að á síðasta kjörtímabili fengum við ekkert endurskoðað deiliskipulag. Stefna og framtíðarsýn stjórnvalda væri eins og þokubakki við sjóndeildarhring. Skipulagsgjald væri innheimt til að búa til stefnu. Það er ekki hægt að bílastæðasjóður sé med eina stefnu, skipulagið med aðra stefnu. Ekkert skipulag er við lýði sem stendur undir nafni. Nauðsynlegt að fá skipulag fyrir midborgina og klára sýn á hvert eigi að stefna. Þá var minnst á að Félag fyrirtækja og verslunareigenda “Midborgin okkar” fái árlega 3-5 milljónir í styrk frá borginni, m.a. úr bílastædasjód. Rétt væri að Íbúasamtökin fengju hærri framlög, mögulega einnig úr bílastæðasjóði.

Kvartað var undan starfsemi Bar 11. Íbúar ásamt Þjóðleikhússtjóra og Lögreglan óskuðu eftir því að aðeins yrði veitt leyfi í flokki II en ekki III, Íbúar fengu bréf frá Magnúsi Sædal byggingarfulltrúa þess efnis að búið væri að samþykkja að veita leyfi III. Ekki væri þó enn búið að samþykkja það hjá borgarráði. Íbúar óska eftir adstoð og samstödu í þessu máli, og var ákveðið að fundurinn ályktaði um málið. Var stjórn samtakanna falið að semja ályktun.

Þá var bent á mikilvægi þess að íbúar fái sinn umboðsmann " umboðsmann íbúa" sem gætti þeirra hagsmuna varðandi skipulags og byggingamál um allt land. Jafnræðisreglan sé brotin á íbúum og ekki geta íbúar dregið lögfræðikostnað frá launum. Tilmælum var beint til stjórnar að reynt verði að endurheimta leiksvæðið við Miðbæjarskólann. Það skjóti skökku við að skrifstofur málefna barna séu nú í húsnæði skólans og það fyrsta sem var gert var, var að leggja niður leikaðstöðuna og útbúa bílastæði.

Lagt var til að íbúasamtökin óskuðu eftir því við borgaryfirvöld að settar yrðu upp rafmagnsplötur “pissuvörn” þar sem íbúar óskuðu eftir. Þá var lögð áhersla á samstöðu íbúa og mikilvægi upplýsingastreymis til íbúa. Íbúum og fulltrúum foreldra í skólaráði Austurbæjarskóla fannst skorta á að miðbærinn sé skilgreindur sem íbúahverfi. Hvetur til þess að íbúasamtökin standi fyrir málþingi um miðborgina sem íbúabyggð.

Reynt hefur verið að fylgja þessum málum eftir eins og kostur er en nú verður stiklað á stóru um mál sem efst hafa verið á baugi á vegum stjórnar Íbúasamtakanna á árinu. Eitt hið fyrsta var að fylgja eftir samþykkt aðalfundarins um Bar 11 við Hverfisgötu sem virtist hafa farið freklega út fyrir mörk hvað varðar hávaða seint að nóttu. Var það gert með ítarlegu áliti til borgarráðs og lögreglu.

Fylgt var eftir kröfum Íbúasamtakann varðandi opnunartíma og hávaða með sambandi við lögreglu og borgayfirvöld. Eftir fund með yfirmönnum lögreglu þar sem fram kom það álit þeirra að lög um áfengisveitingastaði væru eins og gatasigti, erfitt væri m.a. að beita veitingamenn viðurlögum við brot, gengu formaður og lögreglustjóri á fund innanríkisráherra til hvetja til endurskoðunar laganna. Var erindinu vel tekið af ráðherra en ekkert hefur enn gerst.

Þá hefur stjórnin beitt sér enn og aftur í barráttu gegn óreiðuhúsum í miðborginn og notkun dagsekta og mun það hafa komist á einhverja hreyfingu í kerfinu. Hefur formaður komið fram bæði í sjónvarpi og útvarpi vegna þessa ásamt því að aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um málið. Nú nýverið átti formaður viðtal við nýskipaðann byggingarfulltrúa um málið sem mun ætla sér ný vinnubrögð í málunum.

Þá var haldinn í ráðhúsinu fundur undir titlinum Ofbeldið burt á vegum Samtaka verslunareigenda við Laugaveg, Íbúasamtaka miðborgar og Hverfisráðs. Íbúasamtökin ásamt Hverfisráði miðborgar og Hlíða stóðu einnig fyrir því að fjölmennur fundur var haldinn í Ráðhúsinu um málefni Landspítalans.

Fulltrúar Íbúasamtakanna hafa setið fundi í Ráðhúsinu í Starfshóp um öruggari Miðborg óvíst er um framhald þess verkefnis, þ.e. engir fundir hafa verið boðaðir eftir sumarleyfi. Fylgt hefur verið fylgt eftir með fyrirspurnum vinnu við Þróunaráætlun Miðborgar en þar höfum við samt ekki fengið beina aðkomu. Krafan um endurskoðun á skipulagi við Laugaveg og verndunaráætlun svæðisins innan Hringbrautar hefur komist til skila. Þá hefur stjórnin gefið álit á ýmsum skipulagsmálum svo sem við Grundarstíg, Lokastíg, Bergstaðastræti, Frakkastíg/Vatnsstíg og Slippareit í samráði við Íbúasamtök Vesturbæjar. Stjórnin sendi frá sér álit um sorphirðu þar sem mótmælt varr 15 metra reglunni. Stjórnini tókst að fá leiðréttingu á skiptingu svæða íbúakorta hjá Bílastæðasjóði sem stefndi í óefni.

Síðast en ekki síst fór fram um þarsíðustu helgi Málþing um miðborgina sem íbúahverfi. En þetta var einmitt eitt af því sem hæst bar á síðasta aðalfundi Þingið var á vegum Hverfiráðs, Íbúasamtakanna, Foreldrafélags Austurbæjarskóla og leikskólanna í hverfinu. Þar var fjallað um umferðaöryggi og samgöngur, íbúalýðræði, skóli og frístundir, imhverfi og útivist ásamt almennum flokki, allt hitt. Þingið sóttu yfir 100 manns. Þar voru unnar spurningar í vinnuhópum sem settar voru fram við borgarfulltrúa sem sátu í pallborði. Verið er að vinna úr niðurstöðum þingsins sem aðgengilegar verða á heimasíðu okkar. Það má kannske nefna að það sem bar hæst var krafan um að fá spennistöðina við Austurbæjarskóla í gagnið sem félagsmiðstöð. Það er reyndar eitt af þeim málum sem stjórnin hefur beitt sé fyrir á árinu í samvinnu við foreldrafélagið og skólastjóra Austurbæjarskóla. Í undirbúningshópnum hafa verið frá upphafi Magnús Skúlason fyrir Íbúasamtökin og Benóný Ægisson og Birgitta Bára fyrir foreldrafélag Austurbæjarskóla. Hópurin hefur unnið náið með ÍTR og skólastjóra Austurbæjarskóla

Framvindan í stuttu máli :

Við höfðum fyrst samband við Kjartan Magnússon borgarfulltrúa sem var formaður ÍTR ráðsins og Menntaráðs og sat jafnframt í stjórn Orkuveitunnar. Hann veitti okkur áheyrn, skoðaði málið vel og óskaði eftir úttekt á húsnæðinu m.t.t. hugsanlegrar nýtingar í þágu skólans, ÍTR og íbúa miðborgar.

Síðan gerðist þetta:

11.3.2010 – Fundur með Ólafi Hertervig, Ólafi I Halldórssyni og Rúnari Gunnarssyni, F.E.R. (Magnús, Dagbjört og Birgitta)

18.3.2010 - Fundur með við Ólafi Hertervig og Ólafi I Halldórssyni, F.E.R. (Magnús, Dagbjört og Birgitta)

Apríl 2010 var úttekt F.E.R. á húsnæðinu lögð fram, unnin í mars af Óla Hertervig og Ólafi I. Halldórssyni. Í samantekt segir: "Þetta er ekki í fyrsta sinn sem er til umræðu að nýta þetta húsnæði fyrir starfsemi Íþrótta- og tómstundasviðs og Menntasviðs Reykjavíkur. Þetta hefur verið talið fýsilegur kostur á húsnæðisvanda frístundaheimilis og félagsstarfs fyrir börn á þessu svæði. Helsti kosturinn er að þarna er um að ræða húsnæði á skólalóð og börn þurfa ekki að fara út af lóðinni til að komast í félagsstarf. Kostnaður við breytingar er hins vegar frekar mikill eða frá 140,000 kr/m2 til 245,000 kr/m2 eftir því hvaða leið verður valin. Innri leiga gæti orðið frá 4-900 þúsund krónur á mánuði. Orkuveita Reykjavíkur á þetta húsnæði og þarf að finna sér annað geymsluhúsnæði ef Reykjavíkurborg tekur þetta í notkun. Hægt er að vinna þetta í áföngum og gæti þetta verið tilvalið verkefni fyrir ungt fólk að gera þetta húsnæði nothæft. Kostnaður gæti þá eitthvað lækkað en efniskostnaður er alltaf til staðar."

3.5.2010 - Fundur með Ómari Einarson sviðstjóra ÍTR (Magnús, Benóný og Birgitta)

7.5.2010 - Lagt fram bréf foreldrafélags Austurbæjarskóla dags. 30. apríl sl. vegna hugmynda um félagsaðstöðu við Austurbæjarskóla. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti eftirfarandi bókun: “ ÍTR þakkar foreldrafélagi Austurbæjarskóla fyrir fram komnar hugmyndir um húsnæði fyrir starf fyrir börn, unglinga og ungt fólk í hverfinu. Málið hefur verið til skoðunar á Íþrótta- og tómstundasviði og Menntasviði og er nú beðið eftir greinargerð frá Framkvæmda- og eignasviði um hugsanlega nýtingu húsnæðisins og kostnað við endurbætur. ÍTR samþykkir að skoða jafnframt fleiri kosti í þessu skyni m.a. á Klambratúni.”

11.9.2010 - Fundur með Óttarri Proppé, nýjum formanni hverfisráðs Miðborgar, og Daða Ingólfssyni, fulltrúa Besta í ráðinu, . ( Magnús og Birgitta)

16.9.2010 - Hverfisráð Miðborgar lét bóka: "Í ljósi þessar erindis vill Hverfisráðið vekja athygli á því að húsnæðismál félagsmiðstöðvarinnar Kamps eru í uppnámi og brýnt að leysa þau sem allra fyrst. Daði Ingólfsson lét bóka að umrætt húsnæði OR á lóð A Austurbæjarskóla bæri að skoða sérstaklega í þessum tilgangi.”

30.9.2010 - Fundur með Diljá Ámundadóttur, nýjum formanni ÍTR ásamt Ómari Einarssyni, sviðstjóra ÍTR. (Benóný og Birgitta)

11.10.2010 – Fundur með Kjartani Magnússyni og Mörtu Guðjónsdóttur, sitja í ÍTR ráðinu. (Magnús og Birgitta)

22.10.2010 Samhljóma samþykkt af ÍTR ráðinu að skipa starfshóp "til að meta kosti og galla þess að í húsnæði við Austurbæjarskóla, sem nú hýsir varahlutageymslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, verði komið á fót félagsmiðstöð í þágu skólans og hverfisins. Verði niðurstaðan jákvæð, semji hópurin frumtillögur að nýtingu ásamt kostnaðaráætlun. Starfshópurinn skipi fulltrúar Austurbæjarskóla, foreldrafélags Austurbæjarskóla, Íbúasamtaka Miðborgar, Framkvæmda- og eignasviðs, Menntasviðs og Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar."

11. febrúar 2011 Fundur með Evu Einarsdóttur, nýjum formanni ÍTR . Magnús, Benóný ? og Birgitta. Var að koma úr fæðingarorlofi. Þá hafði starfshópurinn lokið við greinagerðina “Spennistöðin, félags- og menningarmiðstöð í Miðborg”. Samhljómur var í starfshópnum og skilaði hann inn greinagerð, frumtillögum að nýtingu og frumkostnaðaráætlun.

18.2.2011 - Skýrsla starfshóps lögð fram á fundi ÍTR ráðsins: “ÍTR ráðið tekur jákvætt í þær hugmyndir sem fram koma í skýrslunni. ÍTR vísar málinu jafnframt til skoðunar á Framkvæmda-og eignasviðs og menntaráðs." 10.6.2011 Fundur með Soffíu Pálsdóttur, skrifstofustjóra tómstundamála á nýju Skóla- og frístundasviði (Magnús, Benóný og Birgitta)

29. 6. 2011 Fundur með Hrólfi Jónssyni sviðstjóra F.E.R. Magnús, Benóný og Birgitta

6. 7. 2011 Fundur með Jóni Gnarr, borgarstjóra og aðstoðarmanni Magnús og Birgitta. Borgarstjóri taldi rétt að málið kæmist á framkvæmdaáætlun borgarinnar sem Fyrst.

20. 7. 2011 Fundur með Degi B. Eggertssyni, formanni Borgarráðs Benóný og Birgitta

5. 11. 2011 Málþing um Miðborgina sem íbúahverfi. Mættir; Óttarr Proppé, Gísli Marteinn Baldursson, Karl Sigurðsson, Eva Einarsdóttir. Varaborgarfulltrúar í sal; Hjálmar Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Diljá Ámundadóttir. Magnús Skúlason

2. Endurskoðaðir reikningar samtakanna.
Gjaldkeri íbúasamtakanna,Guðrún Ágústa Janusdóttir, kynnti reikninga samtakanna. Fram kom að samtökin fengu 187.668 kr. styrk frá Reykjavíkurborg. Helstu útgjöld voru vegna kostnaðar við heimasíðu og vegna auglýsinga á aðalfundi samtakanna. Rekstrarútgjöld voru 114.408 kr. Tekjuafgangur 225.425 kr, sem kemur til af því að styrkur frá Reykjavíkurborg vegna tveggja ára 2010 og 2011 voru afgreiddir á þessu ári.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslur formanns og gjaldkera.

Gestur Ólafsson kom með fyrirspurn varðandi stefnumótun skipulagsmála og svaraði MS því að ekki hafi verið veittur aðgangur að áfangaskýrslunni. Gestur gerði þá athugasemd að það væri réttur okkar borgaranna að fa að fylgjast með málum og þeim sem væru á launum hjá okkur bæri að veita upplýsingar.

Gylfi Kristinsson kom með fyrirspurn varðandi, hvort ekki megi innheimta lágmarksgjald t.d. 500 - 1.000 kr á hvern íbúa til þess að efla samtökin. Fundarstjóri svaraði því til að ekki væri neitt um það í lögum samtakanna og kallar því á lagabreytingu eigi að framkvæma það. Samþykkt að vísa málinu til stjórnar.

Ekki óskuðu fleiri eftir því að taka til máls undir þessum dagskrárlið. Formaður bar reikninganna upp til samþykktar fundarins. Ekki komu fram athugasemdir við reikninganna sem voru samþykktir einróma.

3. Lagabreytingar.
Ekki voru lagðar til lagabreytingar að þessu sinni svo hlaupið var yfir þennan dagskrárlið.

4. Kjör formanns til tveggja ára. Ekki er kosið til formanns þetta árið og situr Magnús Skúlason áfram sem formaður fram að næsta aðalfundi 2012.

5. Kosning stjórnar.

a. Kosning í stjórn til tveggja ára. Arnar Helgi Kristjánsson, Halla Bergþóra Pálmadóttir og Hlín Gunnarsdóttir eiga eftir eitt ár. Benóní Ægisson og Guðrún Janusdóttir hafa lokið tveggja ára stjórnarsetu og gefa kost á sér til áfrahaldandi setu í stjórn og eru bæði kosin til tveggja ára. Bryndís Jónsdóttir lætur af stjórnarsetu og á að kjósa einn mann í stjórn til tveggja ára. Kom fram tillaga um Sverri Sverrisson. og var samþykkt einum rómi.

b. Kosning varamanna í stjórn. Pálína Jónsdóttir og Stefán Þór Steindórsson eiga eftir eitt ár. Sigríður Gunnarsdóttir og Sigurður Sigurðsson láta af setu í varastjórn. Að þessu sinni á að kjósa tvo varamenn til tveggja ára. Fram komu tillögur um Fríðu Ingvarsdóttur og Ingvar Ingvarsson og voru samþykktar einróma.

6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
Björn Líndal og Þorsteinn Haraldsson hafa verið skoðunarmenn frá stofnun samtakanna. Þeir gefa áfram kost á sér töldust því sjálfkjörnir.

7. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
Fundarstjóri lagði til að hlaupið yrði yfir þennan dagskrárlið þar sem stjórn hafi ekki gefist færi á að undirbúa fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár. Þetta var samþykkt.

8. Vinnuhópar
Stjórn skipaði í vinnuhópa sem höfðu m.a. það verkefni að undirbúa aðgerðaráætlun til að gera sýnilega þá þætti sem nauðsynlegt er að borgaryfirvöld taki á, t.a.m. yfirgefin hús í miðbænum, lengd á opnunartíma veitingahúsa. Var unnið að því að koma málefnum til fjölmiðla og skapa opna umræðu. Málþing um miðborgina sem íbúabyggð var meðal þeirra verkefna sem stjórnin stóð að.

9. Verkefni næsta árs.
Verkefni næsta árs auk þeirra mála sem stöðugt er unnið að, taka mið af þeim málefnum sem efst bar á málþinginu í Tækniskólanum og þeim ábendingum sem fram hafa komið hér á aðalfundinum

10. Önnur mál - Erindi gestafyrirlesara.
Síðasti liðurinn á dagskrá aðalfundarins var önnur mál.

Gylfi Kristinsson óskar nýkjörinni stjórn farsældar í starfi. Leggur fyrir fundinn tillögu til ályktunar, varðandi reglugerð um heimagistingu, þar sem þess er óskað að lögum um starfsleyfi sé framfylgt. Ákveðið að vísa málinu til stjórnar, sem mun skoða þetta mál í samvinnu við Gylfa.

Gunnar Hafsteinsson er með fyrirspurn til sjórnar, varðandi afgreiðslu máls varðandi Grundarstíg 10. Hver hafi verið afstaða stjórnar í því máli. Magnús svarar því að stjórn íbúasamtakanna hafi ekki treyst sér til taka afstöðu gegn breyttri notkun á húsinu að Grundarstíg 10. Gylfi kveður sér hljóðs í sambandi við málefni Grundarstígs 10. Hann var í stjórn þegar fjallað var um þetta mál og var mjög andvígur skoðun annara stjórnarmanna og vildi hafna breytingu á breytingu á deiliskipulagi því tengdu.

Sverrir Sverrisson segist hafa verið á íbúaþingi sem haldið var í Tækniskólanum. Þar voru mörg góð erindi og hvetur hann til þess að fleiri slík íbúaþing verði haldin og þakkar stjórn Íbúasamtakanna, og öðrum sem að því stóðu.

Margrét Einarsdóttir er með fyrirspurn varðandi þrifnað á götum í miðborginni, en lítið sem ekkert var hugað að þrifum í hliðargötum síðastliðið sumar. Aðrir fundarmenn eru sammála um að þörf sé að fylgja þessum málum eftir og er málinu vísað til stjórnar. Magnús Skúlason, vekur athygli á því að mikilvægt sé að bæði íbúar og rekstraraðilar hugi jafnframt að því að sýna hirðusemi við hús sín.

Erindi gestafyrirlesara
Borghildur er rannsóknarhópur sem einbeitir sér að öllu sem við kemur mannlífi í borginni. Borghildur rannsakar og skrásetur mannlíf í Reykjavík með myndböndum, hljóðbrotum, talningum, kortagerð og pistlum. Borghildur varð til vorið 2010 og vann að sínu fyrsta verkefni um sumarið. Verkefnið samanstendur af vangaveltumynd og rannsóknarskýrslu um mannlíf á götum, torgum og görðum í miðbæ Reykjavíkur og ber nafnið Borgaraleg hegðun. Sumarið 2011 vann Borghildur að verkefninu Borgarstiklum.

Að loknu erindi gestafyrirlesara sem var fróðlegt og spennandi spunnust umræður. Fríða Ingvarsdóttir vildi vita hvort einhver frekari úrvinnsla hefði orðið á hugmyndum varðandi Óðinstorg, á vegum Borgarinnar. Fram kom í erindi gestafyrirlesara að íbúar í nágrenni Óðinstorga myndu ekki sakna bílastæðanna sem var í tilraunaskini breytt í torg / markaðstorg.

Þeirri spurningu er varpað til íbúasamtakanna hvort þau munu ekki geta fylgt þessu máli eftir.

10. Fundarlok.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 22:30.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is